sunnudagur, 29. nóvember 2009

Georgia May Jagger...


Dóttir Mick Jagger, Georgia May Jagger er nýjasta myndefni ljósmyndara í tískubransanum.

Kemur alls ekki á óvart! Ef frekjuskarð kemst ekki í tísku núna, þá gerist það aldrei.





iD magazine+Vanity Fair
Mig langar í frekjuskarð


Edda Rós

fimmtudagur, 26. nóvember 2009

In the future, everyone will be world-famous for 15 minutes...

Andy Warhol var einum of mikill töffari. Of svalur fyrir lífið. Dó sama ár og ég fæddist, meira segja rétt áður. Ég hefði getað hitt gæjann. En hann var of svalur. Svekkelsi.
Einn af mínum uppáhalds, það er á tandurtæru.

Voilá!





Hver annar en hann hefði orðið frægur fyrir að skella súpudós á borð og kalla það list?
Tala nú ekki um kassa utan af þvottaefni? Ætli Mr. Propre verði komið fyrir ofan í fiskabúr í Guggenheim safninu árið 2020?





R.I.P. Andy...


nei djók, hjálpaðu mér frekar að læra undir próf?

Edda Warhol

sunnudagur, 22. nóvember 2009

60's Twiggy set the pace way back when she had the face...

Oldies Goldies. Hvað dettur þér í hug?

Ég er næstum því viss (ekki alveg, bara næstum því) að þú sveifst alla leið til gamalla tíma, þegar þú varst unglingur (geri ekki ráð fyrir að smábörn lesi fullorðinslegt hjal sem þetta). Hvernig varst þú sem unglingur? Eða, ég ætti kannski að orða þetta öðruvísi. Veit samt ekki alveg hvernig en það sem ég er að reyna segja er „afhverju ertu orðin/-nn eins og þú ert í dag og hvað gerði þig þannig“? Skilurðu?

Ég myndi segja að ég væri svona sitt lítið af hverju. Ímyndaðu þér tungu. Tungunni er „skipt“ upp í 4 hluta, eftir því hvernig þú skynjar bragð. Ekki satt? Án þess að kafa djúpt í eitthvað líffræðilegt, sem hentar mér alls ekki og afsakið þið hin sem eruð með allt þetta á hreinu og hristið hausinn. En jújú menntaskólagangan kenndi mér eitt, og það var að bragðlaukarnir eru nú helvíti margir en skiptast beisiklí í sætt, súrt, beiskt og salt. Oh, ég man ekkert hvert ég ætlaði með þessa tungulíkingu þannig ég set á pásu hérna.

Næsta mál á dagskrá.

Ef ég lít yfir grunnskólaárin þá var ýmislegt skemmtilegt sem kom upp á, ýmsir tónlistamenn sem ég aðhylltist og gerðu mig skrítna, furðulegir vinir, misfallegur klæðaburður og stórkostlega fancy hárgreiðslur. Tala nú ekki um skó sem byrjuðu á Buff og enduðu á -alo. Herregud.

Ýmis atriði sem mótuðu mig að þeirri Eddu Rós sem ég er í dag:

  • Stærðfræðikunnátta: Hófst á þveröfugum enda. Kom heim úr stærðfræðiprófi í 1. bekk, hæstánægð með að hafa einungis verið með 16 villur...Dæmin voru 20.
  • Svertingi í framtíðinni: Þegar pabbi spurði okkur systkinin og tók upp á vídjó, hvað við vildum vera þegar við yrðum stór svaraði ég hreinskilið: Svertingi. Ég vil svart krullað hár og stórar varir....Ósk mín hefur ekki enn ræst.
  • Einelti af hálfu stóra bróður: Já, hann Ragnar bró var duglegur að safna Garbage Pale Kids, líma það á blað og slæda því fallega undir hurðina mína. Hann hafði skýrt allar myndirnar Edda Rós. Kláraði grát-kvótann þetta árið. Ég græt ekki í dag, þökk sé GPK.
  • Spice Girls: Ég gæti skrifað heila bók um áhuga minn á Spice Girls, enda engin önnur hljómsveit sem ég hef dýrkað jafn mikið frá þeim degi (trúið mér, ég hef reynt). Heil hilla var notuð undir Spice Girls myndir, barbídúkkur, útprentaðar eiginhandaáritanir og ég átti meira segja Spice Girls rúmföt (þær voru með mér allan sólarhringinn). Vorum 6 vinkonurnar en Spice Girls voru bara 5 og þegar við sýndum atriði á diskótekum, fór það eftir því hver var leiðinlegust þann daginn. Hún fékk ekki að vera með. Ég var MelB. Ástæðan?-Svertingi.
  • Útvarpsþættir sem voru teknir upp á kasettu með Ingu, Helgu Dagný eða Völku. Mjög fjölbreytilegir þættir sem samanstóðu m.a. af Pepsi auglýsingum, fréttum um Davíð Oddsson, Húsið á sléttunni, sungnum lögum úr Vindáshlíðarbókinni, Dr. Love og fleira gæðaefni.
  • Sumur sem einkenndust af útileikjum; eina króna, körfubolti spilaður á körfu sem var fest með reipi við ljósastaurinn hans Ívars, draugahúsin sem við gerðum í bílskúrnum hjá Ívari og rukkuðum inn, tombólur, 10 skref blindandi. Berjatínslur úti í móa og kofabyggingar í trönunum, sem voru svo alltaf eyðilagðir. Helvítis hrekkjusvín!
  • Tónleikar úti á sólpalli þar sem við Inga skelltum okkur í Mary-Kate & Ashley búninga og tróðum upp með söng og dansi. Rukkuðum inn.
  • Froskar og fiðrildi.
  • Servíettusöfnun: Ég sá kreppuna fyrir. Hver tímir að kaupa servíettur í kreppu?
  • Vindáshlíð og unglingaflokkur í Vatnaskógi. Praise the lord.
  • Vinabandagerð: Alltaf var garn lafandi á mér e-s staðar, á hurðarhúnum, borðfótum og ég veit ekki hvað. Ég ætti kannski að fara selja?
  • Ást til Ástrósar: Þoldi hana ekki sem smábarn og vildi að mamma myndi henda henni í ruslið þegar hún fæddist (vildi nefnilega að hún yrði skírð Brynja Rós...en ég fékk svo dúkku sem ég gat sjálf skírt Brynja Rós...hún nöldraði aldrei), vildi aldrei leyfa henni að vera með. Passaði hana oft og gekk það langt einu sinni þegar hún var að röfla að ég teipaði fyrir munninn á henni. Hún fyrirgaf mér það í gær. Þakka Guði fyrir að hafa ekki viljað henda henni í den.
  • Barnapössun: Var alltaf með krakka í vist. Engir teipaðir þó. Finnst ég eiga e-ð í þessu krökkum í dag, en þau eru orðin svo stóóór. Oh...
  • Rapp-tímabilið: Eftir að hafa fyrirgefið Ragnari bró GPK myndlíkingarnar ákvað ég að taka hann einum of til fyrirmyndar. Horfði á NBA, hlustaði á Tupac, Notorious B.I.G.(Eða Notjorus eins og hann var kallaður af mér), Master P og fleiri. Gladdist mikið yfir að fá Fubu buxur frá Ameríku og var í stórum hettupeysum. Sweet. Allir eiga sín tískumoment, það er víst.
  • Saltpilluæði.
  • Liturinn bleikur. Ég fæ útbrot af bleikum í dag.
  • Fiðlutímar, fiðluhóptímar, tónheyrn, tónfræði, strengjasveit, tónleikar út um allar trissur, hljómsveitin Kókoz....

  • Körfubolti...þar til ég varð of mikil gella og fór í jassballett.
  • Dökkhærð, ljóshærð, brúnhærð, hvíthærð....VALkvíði.
  • Var á hátindi leiklistaferilsins míns þegar ég lék Sandy í Grease í 6.bekk. Leikferli mínum er lokið.
  • Hóf söngferil með grillunni minni, henni Völku. Stofnuðum hljómsveitina VE-girls og sömdum nokkur lög. Þau fær enginn að heyra.

Vá, ég ætlaði að stikla á stóru...enn ætli það sé ekki meira sem mótaði mig en ég gerði mér grein fyrir. Hvað mótaði þig á þínum yngri árum?

Farin í endurmótun...

Edda Rós

p.s. setjum á play með tungutalið hérna fyrir ofan. Ætli ég hafi ekki verið að meina að ég hafi farið ýmsar leiðir í æsku. Úr Spice Girls (sætt bragð) og í Tupac (beiskt bragð). Fjölbreytileiki sjáiði til. Gefa hlutunum séns.

mánudagur, 16. nóvember 2009

2010-all for Big Ben



Pant eignast svona fyrir næsta sumar!






Ég ELSKA ELSKA ELSKA þessi sólgleraugu, Ray-Ban fá að hvíla sig sumarið 2010.

Fjúddfjú-Giles I love you!

ERS sem sér bókstaflega ekki sólina fyrir nýju trendi, ég endurtek: bókstaflega ekki.

sunnudagur, 15. nóvember 2009

Skipulegðu þig áður en þú skipuleggur aðra...

Organise/-ze. Fer eftir því hvort þú sért stödd/staddur í UK eða US.

Í dag vil ég vera stödd í US. Nánar tiltekið Californiu. Enn nánar tiltekið á Mulholland hæð í Los Angeles með fartölvuna að skrifa blogg.

Ég er komin þangað (í huganum) og held áfram...

Skipulagning er eitt af þeim orðum sem ég dái mest. Orð sem ég vil helst hafa í veskinu mínu, límt við debetkortið. Að vera skipulögð er langþráður draumur sem mér finnst alltaf við það að rætast. En eins og með flest sem ég geri, flakkar það upp og niður. Stundum skipulegg ég heilu dagana, frá morgni til kvölds, hvenær ég bursta tennur og hvenær ég tek inn vítamín (djók, ég tek ekki vítamín). Stundum er ég svo óskipulögð að ég er búin að elda mat áður en ég er minnt á að ég sé á leiðinni í matarboð. Þetta getur verið erfitt en hey, ég díla bara við þetta eins og hvað annað.

Þegar ég flutti til Svíþjóðar komst ég á hærra level með skipulagningu og keypti dagbók á prentuðu formi. Lítil og sæt dagbók sem þú getur skrifað allan fjandann í (passaðu þig bara að skrifa ekki of mikið, svo hún verði ekki að óskipulögðu kaosi). Ég keypti meira að segja lítinn og sætan penna í stíl við bókina. Það er enginn maður með mönnum nema hann eigi dagbók í Svíþjóð. Everybody's doing it! Ef þú spyrð Svía hvort hann geti hjálpað þér að flytja, hverju svarar hann? -Jú, hann tekur upp dagbókina, lítur upp úr henni sposkur á svip og segir: „Jú, ég get hjálpað þér þann 17.desember á milli 14:00-16:00, þá er ég laus. Frábært, þú bókar tíma hjá upptekna Svíanum.

Í dag skoða ég dagbókina mína og sé að þetta var ein mesta sænsku-krónu-sóun. Penninn er samt ennþá lítill og sætur og er ekki með best-before stimpilinn eins og dagbókin. Henni þarf að henda. Sóun.

Núorðið hef ég gerst það tæknivædd að ég nota dagatal á rafrænu formi, iCal. Það er mín ást og yndi. Það hefur að geyma liti svo ég get skipt dagatalinu upp í mismunandi hluti, eftir því hvað við á. Skólinn er merktur með bláu, vinirnir með rauðu, útlönd með appelsínugulu (mætti fara að sjást oftar á dagatalinu) og afmæli með fjólubláu. Hversu mikil snilld er þetta? Mikil, segi ég. Þetta er svona svipað og að plata 5 ára krakka til að borða meðal, hafa það nógu litríkt svo honum finnist það sniðugt og kyngir með bestu lyst. Dagatalið er litríkt svo ég fáist til að skipuleggja mig. Like.

Ég á reyndar mágkonu sem er hrikalega skipulögð (enda steingeit). Ég lít upp til þín Ester, einn daginn mun ég verða skipulögð, trúðu mér. Þegar iCal bætir við skemmtilegum myndum, þá fæ ég verðlaun fyrir að vera ein sú skipulagðasta.

Nú nálgast prófin óðum. Hvað þarf ég því að gera?


Vá hvað þið eruð klár! Giskuðuð þið á: Skipuleggja þig! ?

Já...einmitt. Og það gerði ég í gær, skipulagði mig svo mikið að mér fannst það hálfóþægilegt. En viti menn, þetta var bara nokkuð skemmtilegt...enda skipulagði ég allt með litum. Feeling like a kid again.


Sætt dagatal. Gæti verið líkt við meistaraverk eftir Picasso.

Og akkúrat núna hefur mér tekist að komast á botninn í leiðinlegum bloggskrifum. Frábært!
En af botninum er bara ein leið og það er upp á við.

Edda Rós-heilasteikt.

fimmtudagur, 12. nóvember 2009

Eine kleine nachtmusik


Flippum á fimmtudegi og finnum furðulega fasteign á fáránlegu ferðalagi.

Þetta voru hugsanir þýska arkitektastúdíósins J. Mayer H. við hönnun á þessari byggingu.

Nákvæmlega það sama og ég er að hugsa á þessum fimm-tude-gi.

Fáránlegt.

ERS

mánudagur, 9. nóvember 2009

Summertime, child your living's easy...

Ég er dregin inn í raunveruleikann. Vakin af góðum draumi. Ég reyni að sofna aftur, koma mér inn í drauminn á þeim stað sem ég var dregin út úr honum. Það virkar ekki. Ég loka augunum fastar og dreg sængina upp fyrir haus. Tæmi hugann og grúfi mig ofan í koddann. Það virkar ekki, ég er enn vakandi. Pirrast yfir því að hafa verið vakin...og í svona góðum draumi. Gefst upp og fer fram úr.

Ég elska góðan draum, sérstaklega þegar þeir eru í fleirtölu, the more the merrier eins og sérvitri maðurinn sagði eitt sinn. Dejá vu trúi ég að sé draumur sem þig hefur dreymt og liggur enn í undirmeðvitundinni. Undirmeðvitundin er nefnilega merkilegt fyrirbæri sem er jafnframt óútskýranlegt. Ég get það allavega ekki, getur þú?

Draumar eru hins vegar eitt af því fáu sem ég myndi vilja rannsaka, frá A-Ö og komast að merkilegri niðurstöðu. Kannski einn daginn...hver veit.

Ég er byrjuð að hlakka til jólanna, sé kertaljós, arineld, fjölskyldufaðm, teppi, hlýja sokka, jólakökur og heitt kakó fyrir mér í hyllingum. En ég vil ekki vera of snemma í því, þannig að...

Ég fór að skoða tískuna fyrir sumarið 2010. Aldrei of snemmt byrjað á því get ég sagt ykkur! En ég bara varð, þar sem einn af mínum uppáhalds var að gefa út línuna sína, ready-to-wear. Elie Saab gjörið svo vel.





Hann klikkar ekki! Reyndar ekki öll línan hans sem ég heillaðist af en ég meina hey, hann tekur líka feilspor eins og við hin, right?

Mig langar að dreyma góðan draum,
draum sem gleymist eigi.

Honum mun ég gefa gaum
en þér hann aldrei segi.

Edda Rós tilvonandi jóla-og sumarbarn.

þriðjudagur, 3. nóvember 2009

Tomorrow tomorrow...

Ég les og skrifa,
ég elska að lifa

lífinu í dag,
lífinu í Prag.

Ég geng og keyri,
ég tónlist heyri

leikna á fötu,
leikna á götu.

Nei nei nei, ég er ekki flutt til Prague...ekki í dag allavega. Kannski samt. Nei held ekki. Eða? Nei.

Á morgun ætla ég mér að fljóta inn í aðra veröld og þótt ótrúlegt sé, ekki með hjálp ofskynjunarlyfja heldur með hjálp tónlistar. Orð fá því ekki lýst hversu mikið ég elska tónlist en það að komast á tónleika hjá tónlistarmönnum sem spila mína uppáhalds tónlist tel ég mikil forréttindi. Á þessu ári er ég nú þegar búin að fara og hlusta á minn uppáhalds tónlistarmann spila töfrandi tóna sem léku um eyrun mín marga daga á eftir, ef ekki vikur. Í þetta skipti ætla ég hins vegar ekki að taka flugvél á tónleikana, heldur ætla ég að sjá hann Damien Rice spila á Íslandinu yndislega (dæmi hver fyrir sig). Ég hlakka svo til að komast í þennan fallegu-tónlistar-gír og fá að njóta hans þar til e-ð eftir helgi. Þetta er fyrir mér eins og 10 tíma yoga fyrir Indverjagúrúinn frá Delhi. Algjör slökun.

Það er órúlegt hvað tónLIST getur haft mikil áhrif á mig. En á þig? Þegar þú heyrir lag, fer það bara inn um annað eyrað og út um hitt? Hlustarðu á textann? Spáirðu í laginu sjálfu, taktinum og undirleiknum? Það geri ég allavega. Tónlist getur komið mér til að hlæja, jafnt sem gráta. Ég ferðast inn í ákveðinn heim minninga og má ekki heyra ákveðin lög án þess að þau minni mig á hitt og þetta, hetta og þitt.

Ég er samt sem áður mjög gagnrýnin á tónLIST (eins og reyndar flest annað) og á það til að vera kröfuhörð (then again, eins og með flest annað). Ég er ekki lengi að ákveða mig hvort sú tónlist sem ég heyri í fyrsta skipti, muni óma í eyrum mér í komandi framtíð. Það þarf svo lítið til að e-ð smelli og vellíðunartilfinningin poppi upp. En það þarf líka lítið til að ég verði pirruð á þeim sem samdi tónlistina og slekk undir eins, bless og farvel.

En tónlist er partur af mínu daglega lífi, ég er meira að segja aðeins farin að taka þetta upp á næsta level og hlusta á tónlist þegar ég les, en hvort það hafi góð áhrif á eftir að koma í ljós. Ég las nú reyndar fyrir nokkru grein sem var skrifuð um rannsókn sem gerð var á tónlistarfólki og ekki-tónlistarfólki. Tónlistarfólkinu gekk almennt betur í skóla og töldu fræðimenn og spekingar það vera klassísku tónlistinni að þakka. Jæja, ég allavega hlustaði á fiðluspilskasettur á næstum hverju einasta kvöldi í tæp 11 ár og ætti því að hafa verið ágætlega sett í skóla. Spurning um að taka þetta upp aftur, ætli kvótinn fari ekki að klárast?

Fyrst var það Ray Lamontagne, nú er það Damien Rice...hversu gott gerist það?
Gæti hins vegar gerst betra eins og þetta yndislega vídjó sýnir:




Eníhú,

ætla undirbúa mig fyrir hina veröldina sem ég kíki til á morgun. Ég skila kveðju frá ykkur og mun koma til baka eftir ca. viku. Örvæntið ekki.

Edda Rós út.



sunnudagur, 1. nóvember 2009

Bóka (fl) óð...

Hvað er lítið og stórt, þykkt og þunnt, leiðinlegt og skemmtilegt, fróðlegt og afþreying?

Ef þú giskaðir á „bækur“, þá verð ég að hrósa þér fyrir þann mikla metnað sem þú lagðir í þessa hugsun. Klapp á bakið.

Bækur geta verið alveg einstaklega skemmtilegar, látið flugferð verða að engu og komið fólki til að gráta. Þær geta líka verið alveg hrikalega þunglamalegar og erfiðar að komast í gegnum. Svona svipað og með sjónvarpsþætti og bíómyndir, en samt svo öðruvísi. Ef þú horfir á sjónvarpsþátt þá færðu karakterana beint í æð og þarft að hafa núll fyrir hlutunum. Eeen ef þú lest skáldsögu, þá þarftu að leggja aðeins meira á heilann og láta hann ímynda sér persónur sögunnar, umhverfi og aðstæður. En hvort er nú skemmtilegra?

Ég er vön að gera mér auðvelt fyrir og vel því frekar bíómyndir en skáldsögur. Ég einfaldlega nenni ekki að eyða heilli viku í bók sem ég get horft á á ca. 2 tímum. What's the point?

Jújú, ég vil ekki vera með nein leiðindi til þeirra sem finnast gaman að lesa (allir sem mér þykir vænt um) og ég sé þetta stundum út frá ykkar sjónarhorni (aðallega bara á sunnudögum og um jól samt), en æ ég veit það ekki. Movies not books-that's me.

Alltaf fyrir hver jól bið ég reyndar um bækur í jólagjöf, það fá alltaf 1-2 bækur að flækjast á þennan svokallaða jólagjafalista sem ég geri (snilldaruppfinning). Þessar bækur eru samt oftast um e-ð skemmtilegt, svona sniðugt. Í framhaldi af því var ég að spekúlera aðeins í bókahillunni minni og fannst skemmtilegt hvað hún samanstendur af bókum sem eiga lítið sameiginlegt með skáldsögum (eða skólabókum, tala nú ekki um það). Hér er listi af bókum í bókahillunni minni:

Tíska aldanna-alltaf hægt að glugga í þessa.
The great life photographers-yndisleg hreint út sagt.
The architectural drawing course-hver þarf að fara í skóla þegar þú hefur þessa?
Forlögin í kaffibollanum-drekk ekki kaffi og nenni ekki að læra spá fyrir fólki sem gerir það.
Creating a business plan-Bók sem ég keypti á JFK flugvellinum og átti að stytta mér stundir í fluginu...it did not.
It's not how good you are-it's how good you want to be-Snilldarbók fyrir alla!
The secret-klassík.
The goddess guide-Leyndur fjársjóður.
Borða, biðja, elska (Eat, Pray, Love)-Ef þú vilt fara í frítt ferðalag til Ítalíu, Indlands og Indónesíu þá er þetta fljótleg leið.
Marc Jacobs-Þarf að segja meira?
Á ég að gæta systur minnar-Mín uppáhalds (og þótt ótrúlegt sé, er ég ekki búin að sjá myndina My sister's keeper sem er einmitt gerð úr þessari bók).
Spádómabókin-jaaáá sko...
Stjörnumerkin um þig og þína-Amk einu sinni í viku-lesning. Alltaf gott að glugga í hana.
Franskar konur fitna ekki-Glatað að vera íslensk!
He's just not that into you-gott fyrir dramadrottningar...ég? nee kommon
Darkside Zodiac-allar mínar pælingar skotnar í kaf.
Face of our time-falleg ljósmyndabók og gjöf.
1001 way to meet mr. right-deem ég sem var að að leita að leið nr.1002
Löb dig slank-ég er á leiðinni.
Lífsreglurnar 4-Indíánafræði og góð lesning.
Burt með draslið-Já BURT segi ég (það þýðir víst ekki bara að hafa bókina uppi í hillu).
Bókin um Marilyn-skrautleg ævisagan hennar...
Bókin með svörin-ég læt bók taka ákvarðanir fyrir mig, ætti kannski að fara breyta því.
Bók afmælisdaganna-kjút.
101 things I learned in architecture school-lærir maður ekki meira?
150 Best apartment ideas-mynd segir meira en 1000 orð.
House design-snilld.
Design of the 20th century-þarf að bæta fleirum í safnið!
Designer apartments-með teikningum og öllu!
Interior design inspirations-ég er enn að reyna komast í gegnum þessa 1000 bls bók!



Já þetta er skemmtilegur listi og einmitt eins og ég vil hafa hann. Skólabækurnar eru svo á góðum stað og vil ég helst komast hjá því að nefna þær hér, enda hvað er gamanið í því? Einmitt...

En góð bók er gulli betri. Ég er meira svona silfur pía...sorry.

Út og yfir.

Hey munið eftir boltaleiknum yfir? Brennó og öllu því...já!

Edda Rós