Ég er næstum því viss (ekki alveg, bara næstum því) að þú sveifst alla leið til gamalla tíma, þegar þú varst unglingur (geri ekki ráð fyrir að smábörn lesi fullorðinslegt hjal sem þetta). Hvernig varst þú sem unglingur? Eða, ég ætti kannski að orða þetta öðruvísi. Veit samt ekki alveg hvernig en það sem ég er að reyna segja er „afhverju ertu orðin/-nn eins og þú ert í dag og hvað gerði þig þannig“? Skilurðu?
Ég myndi segja að ég væri svona sitt lítið af hverju. Ímyndaðu þér tungu. Tungunni er „skipt“ upp í 4 hluta, eftir því hvernig þú skynjar bragð. Ekki satt? Án þess að kafa djúpt í eitthvað líffræðilegt, sem hentar mér alls ekki og afsakið þið hin sem eruð með allt þetta á hreinu og hristið hausinn. En jújú menntaskólagangan kenndi mér eitt, og það var að bragðlaukarnir eru nú helvíti margir en skiptast beisiklí í sætt, súrt, beiskt og salt. Oh, ég man ekkert hvert ég ætlaði með þessa tungulíkingu þannig ég set á pásu hérna.
Næsta mál á dagskrá.
Ef ég lít yfir grunnskólaárin þá var ýmislegt skemmtilegt sem kom upp á, ýmsir tónlistamenn sem ég aðhylltist og gerðu mig skrítna, furðulegir vinir, misfallegur klæðaburður og stórkostlega fancy hárgreiðslur. Tala nú ekki um skó sem byrjuðu á Buff og enduðu á -alo. Herregud.
Ýmis atriði sem mótuðu mig að þeirri Eddu Rós sem ég er í dag:
- Stærðfræðikunnátta: Hófst á þveröfugum enda. Kom heim úr stærðfræðiprófi í 1. bekk, hæstánægð með að hafa einungis verið með 16 villur...Dæmin voru 20.
- Svertingi í framtíðinni: Þegar pabbi spurði okkur systkinin og tók upp á vídjó, hvað við vildum vera þegar við yrðum stór svaraði ég hreinskilið: Svertingi. Ég vil svart krullað hár og stórar varir....Ósk mín hefur ekki enn ræst.
- Einelti af hálfu stóra bróður: Já, hann Ragnar bró var duglegur að safna Garbage Pale Kids, líma það á blað og slæda því fallega undir hurðina mína. Hann hafði skýrt allar myndirnar Edda Rós. Kláraði grát-kvótann þetta árið. Ég græt ekki í dag, þökk sé GPK.
- Spice Girls: Ég gæti skrifað heila bók um áhuga minn á Spice Girls, enda engin önnur hljómsveit sem ég hef dýrkað jafn mikið frá þeim degi (trúið mér, ég hef reynt). Heil hilla var notuð undir Spice Girls myndir, barbídúkkur, útprentaðar eiginhandaáritanir og ég átti meira segja Spice Girls rúmföt (þær voru með mér allan sólarhringinn). Vorum 6 vinkonurnar en Spice Girls voru bara 5 og þegar við sýndum atriði á diskótekum, fór það eftir því hver var leiðinlegust þann daginn. Hún fékk ekki að vera með. Ég var MelB. Ástæðan?-Svertingi.
- Útvarpsþættir sem voru teknir upp á kasettu með Ingu, Helgu Dagný eða Völku. Mjög fjölbreytilegir þættir sem samanstóðu m.a. af Pepsi auglýsingum, fréttum um Davíð Oddsson, Húsið á sléttunni, sungnum lögum úr Vindáshlíðarbókinni, Dr. Love og fleira gæðaefni.
- Sumur sem einkenndust af útileikjum; eina króna, körfubolti spilaður á körfu sem var fest með reipi við ljósastaurinn hans Ívars, draugahúsin sem við gerðum í bílskúrnum hjá Ívari og rukkuðum inn, tombólur, 10 skref blindandi. Berjatínslur úti í móa og kofabyggingar í trönunum, sem voru svo alltaf eyðilagðir. Helvítis hrekkjusvín!
- Tónleikar úti á sólpalli þar sem við Inga skelltum okkur í Mary-Kate & Ashley búninga og tróðum upp með söng og dansi. Rukkuðum inn.
- Froskar og fiðrildi.
- Servíettusöfnun: Ég sá kreppuna fyrir. Hver tímir að kaupa servíettur í kreppu?
- Vindáshlíð og unglingaflokkur í Vatnaskógi. Praise the lord.
- Vinabandagerð: Alltaf var garn lafandi á mér e-s staðar, á hurðarhúnum, borðfótum og ég veit ekki hvað. Ég ætti kannski að fara selja?
- Ást til Ástrósar: Þoldi hana ekki sem smábarn og vildi að mamma myndi henda henni í ruslið þegar hún fæddist (vildi nefnilega að hún yrði skírð Brynja Rós...en ég fékk svo dúkku sem ég gat sjálf skírt Brynja Rós...hún nöldraði aldrei), vildi aldrei leyfa henni að vera með. Passaði hana oft og gekk það langt einu sinni þegar hún var að röfla að ég teipaði fyrir munninn á henni. Hún fyrirgaf mér það í gær. Þakka Guði fyrir að hafa ekki viljað henda henni í den.
- Barnapössun: Var alltaf með krakka í vist. Engir teipaðir þó. Finnst ég eiga e-ð í þessu krökkum í dag, en þau eru orðin svo stóóór. Oh...
- Rapp-tímabilið: Eftir að hafa fyrirgefið Ragnari bró GPK myndlíkingarnar ákvað ég að taka hann einum of til fyrirmyndar. Horfði á NBA, hlustaði á Tupac, Notorious B.I.G.(Eða Notjorus eins og hann var kallaður af mér), Master P og fleiri. Gladdist mikið yfir að fá Fubu buxur frá Ameríku og var í stórum hettupeysum. Sweet. Allir eiga sín tískumoment, það er víst.
- Saltpilluæði.
- Liturinn bleikur. Ég fæ útbrot af bleikum í dag.
- Fiðlutímar, fiðluhóptímar, tónheyrn, tónfræði, strengjasveit, tónleikar út um allar trissur, hljómsveitin Kókoz....
- Körfubolti...þar til ég varð of mikil gella og fór í jassballett.
- Dökkhærð, ljóshærð, brúnhærð, hvíthærð....VALkvíði.
- Var á hátindi leiklistaferilsins míns þegar ég lék Sandy í Grease í 6.bekk. Leikferli mínum er lokið.
- Hóf söngferil með grillunni minni, henni Völku. Stofnuðum hljómsveitina VE-girls og sömdum nokkur lög. Þau fær enginn að heyra.
Vá, ég ætlaði að stikla á stóru...enn ætli það sé ekki meira sem mótaði mig en ég gerði mér grein fyrir. Hvað mótaði þig á þínum yngri árum?
Farin í endurmótun...
Edda Rós
p.s. setjum á play með tungutalið hérna fyrir ofan. Ætli ég hafi ekki verið að meina að ég hafi farið ýmsar leiðir í æsku. Úr Spice Girls (sætt bragð) og í Tupac (beiskt bragð). Fjölbreytileiki sjáiði til. Gefa hlutunum séns.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli