laugardagur, 13. nóvember 2010

Góð bók gulli betri...

Það var föstudagurinn 12. nóvember (því miður ekki 13.). Ég kom heim úr borginni örmagna af þreytu eftir 12 tíma skóladag og 2ja tíma spjall við mínar uppáhalds (mínus ein sem er staðsett í hinni fallegu Vínarborg) vinkonur.

Á sömu stundu og ég ætlaði að hoppa undir sæng og heimsækja draumaheim var mér litið á eldhúsborðið. Þar lá þetta uppljómaða rit...

...Bókatíðindi voru komin í hús!

Það gleður mig alltaf einstaklega mikið þegar Bókatíðindi detta inn um lúguna. Ekki samt vegna þess hversu mikill lestrarhestur ég er. Ég les ekki íslenskar skáldsögur, les ekki þýddar skáldsögur, ekki ljóðabækur né fleira uppbyggilegt. En til hvers í fjandanum færist alltaf á mig bros við þetta litla, sæta, uppljómaða rit?

Jú, einfaldlega vegna þess að í fyrsta lagi þá veit ég að það styttist í jólin. Sem er nú mikið gleðiefni út af fyrir sig. Í öðru lagi má finna aftast í Bókatíðindum flokk sem inniheldur fræðirit og handbækur. That's where I come in!

Draumráðningabækur, stjörnumerkjabækur og fleiri tilgangslaus rit veita mér mikla hamingju. Hvernig væri lífið ef við slepptum því að lesa það sem er tilgangslaust? Þið getið rétt ímyndað ykkur...

Það var ein bók í ár sem vakti áhuga minn og kom mér mjög á óvart. Farin að halda að áhugasvið okkar mannfólksins geti breyst hraðar en gengi krónunnar. En sem sagt, þessi bók heitir Eitt Þúsund Tungumál. Hún „segir frá lifandi menningarsögu þar sem lesandinn kynnist eitt þúsund tungumálum sem töluð eru víðs vegar um heiminn, kannar bakgrunn þeirra, sögu, tengsl og sérkenni.“ Svo eru að sjálfsögðu myndir (mér er meinilla við skáldsögur vegna skorts á myndum) og landakort sem sýna hvar viðkomandi tungumál er/hefur verið talað.




Ég lýg því ekki að innst inni geymi ég ákveðið lúðagen og hér kemur það mjög skýrt fram. Áhugi á tungumálum! E-ð sem ég get ekki útskýrt þó líf mitt væri í húfi...

Sem sagt,

Bókatíðindi eru komin í hús og jólin á næsta leyti!


Edda Rós

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Á þessi bók að fara á jólagjafalistann hjá Jóla?

Momsa :)

Nafnlaus sagði...

Edda Rós vill væntanlega fá ALLAR hrunbækurnar í ár.