Hæ! Gleðilegt ár yndislegir lesendur og aðrir (sem eigið vonandi eftir að gerast lesendur). Mikið er ég fegin að nýtt ár sé hafið. Ekki misskilja mig, 2010 var virkilega gott ár að mörgu leyti og skilaði mörgum góðum og fallegum minningum sem ég hef nú komið fyrir í langtímaminni heilans (það er víst stærra en okkur grunar). Málið er bara að nýtt ár fyrir mér er miklu meira en „Gamla árið+1“. Það er ákveðið upphaf. Á nýársdag fer ég yfir hið liðna ár, sé hvað ég ætla að gera betur á nýju ári og hvað ég ætla gera verr. Nei djók, að sjálfsögðu stefni ég ekki á að gera neitt verr en áður, smá glens í boði mín.
Hið nýja 2011 vekur upp góðar hugsanir. Ég veit ekki af hverju, en líklega vegna allra þeirra plana sem ég hef nú þegar gert fyrir árið. Það verður heldur betur viðburðarríkt en meira um það seinna.
Nýtt ár er einmitt tími fyrir fólk að byrja nýtt upphaf (eða jú að halda í sama farið ef það hefur virkað vel). Fyrir marga eru áraskipti einmitt það sem þarf til að koma sér út úr erfiðum lífsstíl, eða jú að setja sér einfaldlega bara ný markmið.
Einhvers staðar heyrði ég manneskju segja: „Pff, ég þarf ekkert nýtt ár til að standa mig betur í ræktinni. Ég get alveg eins ákveðið það 1. maí“.
Að sjálfsögðu hefði þessi sama manneskja getað ákveðað þetta mikilfengna markmið 1. maí en hvað er svo slæmt að gera það bara á nýju ári? Einmitt. Það er ekkert slæmt við það.
Ég ætla ekki að lofa upp í ermina á mér og fara fögrum og mörgum orðum um það hversu dugleg ég ætla að vera blogga á nýju ári (það er ekki áramótaheit 2010-2011). Hins vegar ætla ég að gera mitt besta að hafa þær færslur sem ég skrifa um eitthvað sem ykkur þykir gaman að lesa. Þá gleðjist þið og að lokum gleðst ég. Orsök og afleiðing, munið það!
Þar sem ég geri ráð fyrir að færslan sé tímasett hafið þið væntanlega tekið eftir að klukkan er tuttugu mínútur í 2 á aðfaranótt föstudags.
Jább, ég er heldur betur komin í vítahring sólarhringssnúnings. Þessi árlegi sólarhringssnúningur getur verið ferlegur en varir oftast ekki lengur en yfir hátíðirnar, sem betur fer. Líkamsklukkan fer í tómt tjón og veit ekki hvað snýr upp né niður.
-Dagatalið á myndinni fattaði ekki að 1. janúar 2011 var ekki á mánudegi-
En ég hlakka til ársins 2011 og vona að það gerið þið líka. Ég finn allavega fyrir mjög góðri orku sem mun einkenna þetta ár og lái mér hver sem vill!
Elskið friðinn og strjúkið kviðinn (mjúka kviðinn að sjálfsögðu, eftir allt matarátið).
Edda Rós
2 ummæli:
Sammála.. ég er mjög spennt fyrir 2011. Held að þetta verði frábært ár... við gerum það að frábæru ári!
Heldur betur miss E. Geri ráð fyrir að byrjun júlí muni standa upp úr ;)
Skrifa ummæli